Suya - kjúklingaspjót frá Kamerún

Þessi jólin verðum við fjölskyldan með mið-afríska veislu á jóladag. Það er orðin hefð hjá okkur að elda hátíðarmat frá ákveðnu landi eða landsvæði á jóladag. Í fyrra vorum við með veislu frá Írak og frá Filippseyjum árið á undan. 
Eftir að hafa verið búin að elda mat frá sumum af þessum löndum áður veit ég að á þessu svæði er mikið um jarðhnetur og hnetusmjör ásamt pálmaolíu í matargerðinni. Þegar ég fór að skoða uppskriftir fyrir jólamatinn staðfestist það auðvitað enn frekar. Á tímabili var ég orðin ansi leið á kjúklingi í hnetusmjöri en ég held að við höfum valið nokkuð góðar uppskriftir í ár.
Fyrsta "jóla"uppskriftin sem ég ætla að deila hér á blogginu er uppskrift að suya, sem eru grilluð kjúklingaspjót frá Kamerún. Kamerún er reyndar á mörkum þess að teljast vestur- eða mið-afríka. Vegna þess hve erfitt er að finna uppskriftir frá þessu landsvæði leyfum við okkur að hafa Kamerún með í upptalningunni. 
Suya eru vel krydduð og einstaklega bragðgóð kjúklingaspjót. Þau minna svolítið á Saffran-kjúkling og eru sjálfsagt mjög góð með góðri jógúrtsósu. Ég rétt stalst til að smakka bita áður en spjótin voru fryst því svo verða þau ekki borðuð fyr
r en á jóladag.

Suya

750 g úrbeinuð kjúklingalæri
50 g salthnetur
1/2 tsk cayennepipar (eða eftir smekk)
1 tsk reykt paprikuduft
1/2 tsk hvítlauksduft
1/4 tsk engiferduft
1/4 tsk múskat
1/2 tsk laukduft
1/2 tsk hvítur pipar
1/2 tsk kjúklingakraftur
2 msk olía
salt
grillspjót

1. Skerið kjúklinginn niður í bita og setjið í skál. Ekki of litla því bitarnir fara á grillspjót.
2. Malið salthneturnar í matvinnsluvél og hellið út í kjúklinginn.
3. Mælið öll kryddin í skálina og hrærið öllu vel saman. Saltið.
4. Setjið kjúklingabitana á grillspjót.
5. Hitið grill og penslið með smá olíu. 
6. Grillið kjúklinginn í 5-6 mínútur á hvorri hlið eða þar til hann er eldaður í gegn. 

Ég lofa! Þið verðið ekki svikin af þessum grillspjótum! Þetta er eitthvað sem ég ætla að grilla aftur og aftur næsta sumar.

Ummæli

Vinsælar færslur